https://www.youtube.com/watch?v=4BfKFCOCJe8

PACE

yfirlýsing

Yfirlýsing 2191 (2017)

Til stuðnings mannréttindum og til útrýmingar á mismunun í garð intersex fólks

Höfundar: Þing Evrópuráðsins

Uppruni – . Umræða 12. október 2017 (á 35. þingfundi) (sjá Doc. 14404, skýrslu nefndar um jafnrétti og mismunun, flutta af hr. Piet De Bruyn). Texti samþykktur af þinginu þann 12. október 2017 (á 35. þingfundi). Sjá einnig tilmæli 2116 (2017).

1. Intersex fólk fæðist með líffræðileg kyneinkenni sem falla ekki að samfélagslegum staðalmyndum eða læknisfræðilegum skilgreiningum á því hvað geri manneskju karlkyns eða kvenkyns. Stundum uppgötvast að einstaklingur sé intersex við fæðingu; stundum verður það ekki ljóst fyrr en síðar á lífsleiðinni, gjarnan í kringum kynþroskaaldur. Þrátt fyrir mikinn fjölbreytileika er flest intersex fólk líkamlega heilbrigt. Fáar intersex manneskjur greinast með einkenni sem stefna heilsu þeirra í hættu. Engu að síður hefur það að vera intersex löngum verið meðhöndlað fyrst og fremst sem læknisfræðilegt vandamál. Ráðandi viðhorf innan læknisfræðinnar er að mögulegt og nauðsynlegt sé að aðlaga líkama intersex barna að dæmigerðum kyneinkennum karla og kvenna, oft með skurðaðgerðum eða hormónameðferð; og að börn skuli alin upp með kyngervi sem samsvarar líffræðilega kyninu sem líkama þeirra sé úthlutað.

2. Að mati þings Evrópuráðsins brýtur þessi nálgun með alvarlegum hætti gegn líkamlegri friðhelgi, oft hjá mjög ungum börnum eða kornabörnum sem geta ekki veitt samþykki og hafa óþekkta kynvitund. Þetta er gert þrátt fyrir það að engin gögn bendi til þess að slík inngrip séu árangursrík til langs tíma litið, að heilsa einstaklingsins sé ekki í aðsteðjandi hættu og að engin raunverulegur meðferðartilgangur sé með inngripunum, sem er ætlað að afstýra eða lágmarka (ætluð) félagsleg vandamál frekar en læknisfræðileg. Í kjölfar slíkrar meðferðar fylgir oft ævilöng hormónameðferð og eftirköst, auk skammar og leyndar.

3. Foreldrar eru oft beittir þrýstingi um að taka brýnar, afdrifaríkar ákvarðanir fyrir hönd barns síns án þess að hafa fullan skilning á þeim langvarandi afleiðingum fyrir barnið sem ákvarðanir um líkama þess í frumbernsku og á fyrstu æviárunum hafa í för með sér.

4. Skilningur á þessum málum fer vaxandi, en enn er þörf á samstilltu átaki til að auka meðvitund almennings um stöðu og réttindi intersex fólks til að tryggja að það njóti fyllstu viðurkenningar í samfélaginu, án fordóma eða mismununar.

5. Þingið áréttar mikilvægi þess að löggjöf skapi hvorki né viðhaldi tálmunum á jafnrétti fyrir intersex fólk. Í þessu felst meðal annars að tryggja að intersex fólk sem álítur sig hvorki karlkyns né kvenkyns hafi aðgang að lagalegri viðurkenningu á kynvitund sinni og að hafi kyn þeirra ekki verið skráð rétt við fæðingu sé hægt að leiðrétta það í gegnum auðvelt ferli sem byggi eingöngu á sjálfsskilgreiningu, eins og fram kemur í yfirlýsingu 2048 (2015) um mismunun gegn trans fólki í Evrópu. Einnig kann að þurfa að breyta löggjöf sem bannar mismunun til að tryggja að hún nái til stöðu intersex fólks.

6. Þingið telur að ofangreint varði við ýmsar greinar Mannréttindasáttmála Evrópu (ETS nr. 5), einkum 3. og 8. gr.

7. Í ljósi ofangreinds, sem og samningsins um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar við hagnýtingu líffræði og læknisfræði (ETS nr. 164, „Oviedo-samningsins“) og tilmælanna í yfirlýsingu 1952 (2013) um rétt barna til líkamlegrar friðhelgi, og ennfremur í ljósi tilmæla mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins og ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna, skorar þingið á aðildarríki Evrópuráðsins:

7.1. hvað varðar rétt barna til líkamlegrar friðhelgi og sjálfræðis og valdeflingu intersex fólk í tengslum við téð réttindi:

7.1.1. að leggja bann við læknisfræðilega ónauðsynlegum skurðaðgerðum til að laga kyneinkenni að staðalmyndum, ófrjósemisaðgerðum og öðrum meðferðum sem intersex börn eru beitt án upplýsts samþykkis;

7.1.2. að tryggja að í öllum tilvikum nema þeim þar sem líf barnsins er í bráðri hættu verði meðferð til breytingar á kyneinkennum barns, þar með talið kynkirtlum, kynfærum og innri kynfærum, slegið á frest þar til barnið getur tekið þátt í ákvörðuninnni, svo að sjálfsákvörðunarréttur og frjálst og upplýst samþykki séu höfð í heiðri;

7.1.3. að sjá öllu intersex fólki fyrir heilbrigðisþjónustu í gegnum sérhæft, þerfaglegt teymi sem vinni eftir heildstæðri, sjúklingsmiðaðri nálgun og samanstandi ekki eingöngu af sérfræðingum á sviði læknisfræði heldur einnig öðrum sérfræðingum svo sem sálfræðingum, félagsráðgjöfum og siðfræðingum, og sem starfi samkvæmt viðmiðunarreglum sem þróaðar séu í samvinnu intersex samtaka og hlutaðeigandi fagaðila;

7.1.4. að tryggja að intersex fólk hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu alla sína ævi

7.1.5. að tryggja intersex fólki óheftan aðgang að sjúkraskýrslum sínum;

7.1.6. að sjá öllum hlutaðeigandi fagaðilum á sviði læknisfræði, sálfræði o.s.frv. fyrir heildstæðri og uppfærðri þjálfun í þessum málum, sem kemur því skýrt til skila að intersex líkamar séu náttúruleg tilbrigði í þróun kyneinkenna og því sé ekki þörf á að breyta þeim;

7.2. hvað varðar stuðning við intersex einstaklinga, foreldra þeirra og aðstandendur við að takast á við þær áskoranir sem fylgja meðal annars samfélagslegum viðhorfum í garð breytileika á kyneinkennum:

7.2.1. að tryggja að fullnægjandi sálfélagslegur stuðningur sé í boði fyrir intersex einstaklinga og fjölskyldur þeirra á öllum æviskeiðum;

7.2.2. að styðja frjáls félagasamtök sem vinna að því að rjúfa þögnina um stöðu intersex fólks og skapa umhverfi þar sem intersex fólk treystir sér til að segja opinskátt frá reynslu sinni;

7.3. hvað varðar borgararéttindi og lagalega viðurkenningu á kyni:

7.3.1. að tryggja að lög og framkvæmd við skráningu á barnsfæðingum, sérstaklega hvað varðar skráningu á kyni ungabarns, virði réttinn til friðhelgi einkalífs með því að bjóða upp á nægjan sveigjanleika til að takast á við stöðu intersex barna án þess að þröngva foreldrum eða heilbrigðisstarfsfólki til að upplýsa um það að óþörfu að barnið sé intersex;

7.3.2. að einfalda framkvæmd við lagalega viðurkenningu á kyni í samræmi við tilmæli þingsins í yfirlýsingu 2048 (2015) og tryggja sérstaklega að ferlið taki stuttan tíma, sé gagnsætt og öllum aðgengilegt og byggi á sjálfsákvörðun;

7.3.3. að tryggja að þar sem einstaklingar séu flokkaðir eftir kyni af hinu opinbera standi öllum úrval valkosta til boða, þar á meðal intersex fólki sem skilgreinir sig hvorki sem karl né konu;

7.3.4. að íhuga að gera skráningu kyns á fæðingarvottum og öðrum skilríkjum valkvæða fyrir alla;

7.3.5. að tryggja, í samræmi við réttinn til friðhelgi einkalífs, að intersex fólki sé ekki meinað að ganga í staðfesta samvist eða hjónaband eða að vera áfram í slíkri samvist eða hjónabandi vegna lagalegrar viðurkenningar á kyni sínu;

7.4. hvað varðar baráttu gegn mismunun í garð intersex fólks, að tryggja að jafnréttislöggjöf nái til og verndi intersex fólk, annaðhvort með því að tilgreina bann við mismunun á grundvelli kuneinkenna í allri jafnréttislöggjöf og/eða með því að efna til vitundarvakningar meðal lögfræðinga, lögreglu, saksóknara, dómara og allra annarra hlutaðeigandi fagaðila, sem og meðal intersex fólks, um þann möguleika að takast á við mismunun í þeirra garð í gegnum bann við mismunun á grundvelli kyns eða sem „stöðu að öðru leyti“ þar sem listinn yfir óheimilan grundvöll mismununar í jafnréttislöggjöf er ekki tæmandi;

7.5. að safna frekari gögnum og stunda frekari rannsóknir á stöðu og réttindum intersex fólks, þar á meðal um langtímaáhrif skurðaðgerða, ófrjósemisaðgerða og annarra inngripa til að laga kyneinkenni að normum sem intersex fólk er látið sæta án frjáls og upplýsts samþykkis, og þessu tengt:

7.5.1. að rannsaka skaðann sem orðið hefur í fortíðinni vegna ífarandi og/eða óafturkræfra inngripa til að laga kyneinkenni að normum sem eru framkvæmd án samþykkis viðkomandi og skoða möguleikann á að greiða þeim einstaklingum sem hafa liðið fyrir slík inngrip skaðabætur, hugsanlega úr sérstökum sjóði;

7.5.2. að skrá öll inngrip sem framkvæmd eru á kyneinkennum barna til að öðlast heildstæða yfirsýn yfir viðteknar starfsvenjur;

7.6. að framkvæma herferðir til vitundarvakningar meðal fagaðila og almennings hvað varðar stöðu og réttindi intersex fólks.

8. Loks býður þing Evrópuráðsins þjóðþingum að starfa virkt að því, í samvinnu við intersex fólk og hagsmunasamtök þeirra, að vekja almenning til meðvitundar um stöðu intersex fólks í ríkjum sínum og koma ofangreindum tilmælum í framkvæmd.