Evrópuþingið,
– með hliðsjón af 2. gr. sáttmálans um Evrópusambandið,
– með hliðsjón af 8. og 10. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins,
– með hliðsjón af sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarrétti, sér í lagi 21. grein hans,
– með hliðsjón af félagssáttmála Evrópu, sér í lagi 11. grein hans,
– með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2012/29/EU frá 25. október 2012 sem kveður á um lágmarksréttindi, stuðning og vernd fórnarlamba glæpa,
– með hliðsjón af skýrslu framkvæmdastjórnar frá árinu 2011 sem ber titilinn „Trans og intersex fólk“,
– með hliðsjón af lokaskýrslum tiraunaverkefnisins „Health4LGBTI“, sem fjármagnað var af framkvæmdastjórninni, um ójöfnuð LGBTI fólks (lesbía, homma, og tvíkynhneigðs, trans og intersex fólks) í heilsu,
– með hliðsjón af ályktun sinni frá 4. febrúar 2014 um vegvísi ESB gegn hómófóbíu og mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar,
– með hliðsjón af ályktun sinni frá 13. desember 2016 um stöðu grundvallarréttinda innan Evrópusambandsins árið 2015,
– með hliðsjón af skýrslu sem gefin var út í maí 2015 af Evrópustofnun grundvallarmannréttinda (FRA) og ber titilinn „Staða grundvallarmannréttinda intersex fólks“,
– með hliðsjón af netútgáfu FRA í nóvember 2017 sem ber titilinn „Kortlagning á aldurslágmörkum er varða réttindi barna innan Evrópusambandsins“,
– með hliðsjón af skýrslu FRA um grundvallarréttindi frá 2018,
– með hliðsjón af mannréttindasáttmála Evrópu,
– með hliðsjón af Evrópusamningnum um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu,
– með hliðsjón af ályktun þings Evrópuráðsins nr. 2191, sem samþykkt var 2017, til stuðnings mannréttindum og til útrýmingar á mismunun í garð intersex fólks,
– með hliðsjón af skýrslu mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins frá árinu 2015 um mannréttindi og intersex fólk,
– með hliðsjón af almennu mannréttindayfirlýsingunni,
– með hliðsjón af samningi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) gegn pyntingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu,
– með hliðsjón af samningi SÞ um réttindi barnsins,
– með hliðsjón af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks,
– með hliðsjón af skýrslu sérstaks skýrslugjafa SÞ um pyntingar og aðra grimmilega, ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 2013,
– með hliðsjón af Jogjakarta-meginreglunum („Meginreglur og skuldbindingar ríkja um beitingu alþjóðlegra mannréttindaákvæða með tilliti til kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar og kyneinkenna“), samþykktum í nóvember 2006, og viðbótarreglunum tíu („plús 10“) sem samþykktar voru 10. nóvember 2017,
– með hliðsjón af spurningum til ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar um réttindi intersex fólks (O-000132/2018 – B8-0007/2019 og O-000133/2018 – B8-0008/2019),
– með hliðsjón af tillögu nefndar um borgaralegt frelsi, dóms- og innanríkismál til ályktunar,
– með hliðsjón af greinum nr. 128(5) og 123(2) í starfsreglum sínum,
A. þar eð intersex einstaklingar eru fæddir með líkamleg kyneinkenni sem falla ekki að læknisfræðilegum eða félagslegum normum fyrir kven- eða karllíkama, og þessi breytileiki á kyneinkennum getur birst í fyrsta stigs kyneinkennum (svo sem innri eða ytri kynfærum og litningum og hormónastarfsemi) og/eða annars stigs kyneinkennum (svo sem vöðvamassa, hárvexti og hæð);
B. þar eð intersex fólk verður í mörgum tilvikum fyrir ofbeldi og mismunun innan Evrópusambandsins og þessi mannréttindabrot eru að stórum hluta ókunn almenningi og stjórnvöldump;
C. þar eð algengt er að skurðaðgerðir og læknisfræðileg meðferð sé framkvæmd á intersex ungbörnum, þótt þess gerist í flestum tilvikum ekki þörf; þar eð fegrunaraðgerðir og áríðandi aðgerðir geti verið kynntar sem pakki, sem fyrirbyggir að foreldrar og intersex fólk séu upplýst að fullu um áhrif hvors fyrir sig;
D. þar eð skurðaðgerðir og læknisfræðileg meðferð er framkvæmd á intersex börnum án fyrirfram veitts, persónulegs, fulls og upplýsts samþykkis; þar eð limlesting á kynfærum intersex fólks getur haft ævilangar afleiðingar, svo sem valdið sálrænum áföllum og líkamlegum skerðingum;
E. þar eð intersex einstaklingar og intersex börn sem tilheyra öðrum minnihlutahópum eða jaðarsettum hópum verða fyrir aukinni jaðarsetningu og félagslegri útskúfun og eiga á hættu ofbeldi og mismunun vegna margþættrar sjálfsmyndar þeirra;
F. þar eð flest aðildarríki heimila að skurðaðgerð sé framkvæmd á intersex barni eða fötluðum intersex einstaklingi með samþykki forsjáraðila háns, óháð því hvort intersex einstaklingurinn er fær um að taka ákvörðunina;
G. þar eð foreldrar og/eða forsjáraðilar sæta í mörgum tilvikum miklum þrýstingi um að taka ákvarðanir án þess að vera upplýst um ævilangar afleiðingar fyrir barnið;
H. þar eð margt intersex fólk hefur ekki fullan aðgang að læknaskýrslum sínum og veit þar af leiðandi ekki að það er intersex eða veit ekki hvaða læknismeðferð það hefur sætt;
I. þar eð intersex-tilbrigði eru enn skilgreind sem sjúkdómar, svo sem í sjúkdómaskrá (ICD) Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), þótt ekki liggi fyrir gögn um langtímaárangur meðferðar við þeim;
J. þar eð sumt intersex fólk samsamar sig ekki því kyni sem því var úthlutað læknisfræðilega við fæðingu; þar eð lagaleg viðurkenning á kyni á grundvelli sjálfsákvörðunar er einungis heimil í sex aðildarríkjum; þar eð mörg aðildarríki krefjast enn vönunar til að breyta kynskráningu;
K. þar eð mismununarlöggjöf Evrópusambandsins, og í flestum aðildarríkjum, nær ekki til mismununar á grundvelli kyneinkenna, hvorki sem sjálfstæðs flokks eða sem afbrigðis af mismunun á grundvelli kyns;
L. þar eð brotið er á mannréttindum margra intersex barna og kynfæri þeirra limlest innan Evrópusambandsins þegar þau fara í normalíserandi aðgerðir á kyneinkennum;
1. Ályktar að áríðandi sé að ávarpa brot á mannréttindum intersex fólks og óskar eftir því að framkvæmdastjórnin og aðildarríkin leggi fram tillögur að lögum til að ávarpa þessi mál;
Lækninga- og sjúkdómsvæðing
2. Fordæmir harðlega normalíserandi aðgerðir og meðferð á kyneinkennum; fagnar lögum sem banna slíkar aðgerðir, svo sem í Möltu og Portúgal, og hvetur önnur aðildarríki til að samþykkja svipuð lög eins fljótt og auðið er;
3. Leggur áherslu á mikilvægi þess að sjá intersex börnum og fötluðum intersex einstaklingum, sem og foreldrum þeirra eða forsjáraðilum, fyrir nægjanlegri ráðgjöf og stuðningi, og upplýsa þau að fullu um afleiðingar normalíserandi aðgerða á kyneinkennum;
4. Skorar á framkvæmdastjórnina og aðildarríkin um að styðja samtök sem vinna að því að rjúfa skömmina sem fylgir því að vera intersex;
5. Skorar á framvæmdastjórnina og aðildarríkin að auka fjárhagslegan stuðning við intersex félagasamtök;
6. Skorar á aðildarríkin að bæta aðgengi intersex fólks að sjúkraskrám sínum, og að tryggja að enginn verði látinn sæta ónauðsynlegri læknisfræðilegri meðferð eða skurðaðgerðum í frumbernsku eða æsku, og tryggja þar með umræddum börnum líkamlega friðhelgi, sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt;
7. Álítur að sjúkdómsvæðing intersex tilbrigða stefni í hættu þeim rétti intersex fólks að njóta bestu mögulegu heilsu, eins og kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna; skorar á aðildarríkin að binda enda á sjúkdómsvæðingu intersex fólks;
8. Fagnar því að í elleftu útgáfu alþjóðlegu sjúkdómaskrárinnar (ICD-11) sé dregið úr sjúkdómsvæðingu á trans kynvitund, þótt ekki sé nema að hluta; bendir þó á að flokkunin „misræmi á kyni“ í æsku sjúkdómsstimplar hegðun barna sem fellur ekki að kynjuðum væntingum; skorar því á aðildarríkin að beita sér fyrir fjarlægingu þessarar flokkunar úr ICD-11, og fyrir því að komandi breytingar á ICD verði í samræmi við heilbrigðiskerfi aðildarríkjanna;
Skilríki
9. Undirstrikar mikilvægi sveigjanlegs ferlis við skráningu fæðinga; fagnar löggjöf í sumum aðildarríkjanna sem heimilar lagalega viðurkenningu á kyni út frá sjálfsskilgreiningu; hvetur önnur aðildarríki til að festa svipuð ákvæði í lög, þar á meðal sveigjanleg ferli til að breyta kynskráningu, svo lengi sem kyn er enn skráð, sem og nöfn á fæðingarvottorðum og öðrum skilríkjum (þar á meðal möguleikann á kynhlutlausu nafni);
Mismunun
10. Fordæmir skort á viðurkenningu á kyneinkennum sem grundvelli mismununar innan Evrópusambandsins, og leggur því áherslu á mikilvægi þessarar forsendu til að tryggja intersex fólki aðgang að réttlæti;
11. Skorar á framkvæmdastjórnina að auka miðlun góðra starfsvenja á þessu sviði; skorar á aðildarríkin að setja nauðsynleg lög til að tryggja viðunandi vernd, virðingu og eflingu grundvallarréttinda intersex fólks, þar á meðal intersex barna, þar með talið fulla vernd gegn mismunun;
Almenningsvitund
12. Skorar á alla hlutaðeigandi til að rannsaka málefni intersex fólks út frá sjónarhorni félagsvísinda og mannréttinda fremur en læknavísinda;
13. Skorar á framkvæmdastjórnina að tryggja að fjármunir Evrópusambandsins styðji ekki rannsóknir eða læknisfræðileg verkefni sem stuðla að frekari mannréttindabrotum gegn intersex fólki, í samhengi evrópsku tilvísunarnetanna (ERN); skorar á framkvæmdastjórnina og aðildarríkin að styðja og fjármagna rannsóknir á mannréttindastöðu intersex fólks;
14. Skorar á framkvæmdastjórnina að skoða réttindi intersex fólks út frá heildrænu, réttindamiðuðu sjónarhorni og samræma betur störf stjórnarsviða dómsmála og neytenda, mennta-, ungmenna-, íþrótta- og menningarmála, og heilbrigðis- og fæðuöryggismála, til að tryggja samræmi í stefnu og stuðningi við intersex fólk, þar með talið í þjálfun ríkisstarfsmanna og heilbrigðisstétta;
15. Skorar á framkvæmdastjórnina að styrkja intersex víddina í hinsegin aðgerðalista sínum frá og með núverandi tímabili, og að hefja hér með undirbúning á endurnýjun þessarar áætlunar fyrir næsta tímabil (2019-2024);
16. Skorar á framkvæmdastjórnina að stuðla að miðlun bestu starfsvenja meðal aðildarríkjanna um vernd mannréttinda og líkamlegrar friðhelgi intersex fólks;
17. Felur forseta sínum að áframsenda þessa ályktun til ráðsins, framkvæmdastjórnarinnar, ríkisstjórna og þjóðþinga aðildarríkjanna og þings Evrópuráðsins.
Á ensku: http://www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-8-2019-0128_EN.html?redirect