Greinar

Hvað er intersex? Hvernig skilgreinum við intersex?

By August 19, 2014 September 15th, 2014 No Comments

Intersex er meðfætt frávik á líkamlegum kyneinkennum. Það er að segja líkamlegur munur á litningum, erfðafræðilegri framsetningu, hormónastarfsemi, kynfærum, svo sem eistum, getnaðarlim, kvensköpum, sníp, eggjastokkum og svo framvegis.

Intersex mismunur kemur venjulega fram í innri eða ytri kynfærum. Við erum intersex því að meðfædd kyneinkenni okkar virðast vera bæði karl- og kvenkyns, ekki algerlega karl- eða kvenkyns, eða hvorki karl- né kvenkyns.

Intersex snýst ekki um kynleiðréttingarferli eða að viðkomandi skilgreini sig sem trans eða hafi slíka reynslu. Það snýst heldur ekki um kynferðislegar langanir. Fylgni getur verið milli breytileika í heilastarfsemi og bæði kynhneigðar og kynvitundar, en intersex snýst ekki um heilastarfsemi.

Ekki er alltaf augljóst að einstaklingur sé intersex, því ekki er algengt í okkar samfélagi að við grandskoðum kynfæri eða innri líffæri hvert annars. Intersex getur einnig sést á meðfæddum líkamlegum mun á ytri kyneinkennum, t.d. vöðvamassa, dreifingu á líkamshárum, brjóstvexti og líkamshæð..

Skilgreining í þróun

Samtökin OII í Ástralíu notast við þessa einföldu skilgreiningu á intersex:

Intersex fólk er fætt með líkamleg, erfðafræðileg eða hormónaeinkenni sem eru hvorki að fullu kvenkyns né karlkyns, samsetning af karlkyni og kvenkyni, eða hvorki kvenkyns né karlkyns.

 

Alþjóðlegar skilgreiningar

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), rannsóknardeild erfðamengja:

Intersex er skilgreint sem meðfætt frávik í kynfærum og æxlunarfærum.

Skrifstofa Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna (2013):

Intersex einstaklingur er fæddur með kynfæri, æxlunarfæri og/eða litningamynstur sem fellur ekki að dæmigerðum skilgreiningum á karl- eða kvenkyni. Þetta getur komið í ljós við fæðingu eða síðar á lífsleiðinni. Intersex einstaklingar skilgreina sig sem kvenkyns, karlkyns eða hvorugt.  Sú skilgreining snýst ekki um kynhneigð eða kynvitund; intersex fólk hefur jafn fjölbreytilega kynhneigð og kynvitund og fólk sem ekki er intersex.

Árið 2013 skilgreindi Evrópudómstóllinn intersex á eftirfarandi hátt:

Hugtakið „intersex“ vísar til ódæmigerðra einkenna/útlits á innri og/eða ytri kynfærum, þar sem kyneinkenni sem almennt eru skilgreind sem karl- eða kvenkyn eru að einhverju leyti blönduð. Þetta er náttúrulegur breytileiki í mannfólki, ekki sjúkdómur. Nauðsynlegt er að greina á milli intersex fólks og transfólks sem undirgengst kynleiðréttingu.  Ekki leikur vafi á því kyni sem transexúal fólki er úthlutað við fæðingu, heldur upplifa þau sig sem annað kyn og eru því reiðubúin að gangast undir kynleiðréttingarferli til að leiðrétta kyn sitt

 

Ástralskar skilgreiningar

Lögin „Commonwealth Sex Discrimination Amendment (Sexual Orientation, Gender Identity and Intersex Status) Act 2013“:

Að vera intersex þýðir að viðkomandi einstaklingur hefur líkamleg, erfðafræðileg eða hormónaeinkenni sem eru: (a) hvorki fullkomnlega kvenkyns né karlkyns; (b) blanda af karlkyni og kvenkyni; eða c) hvorki karlkyns né kvenkyns.

Takið eftir að þessi skilgreining inniheldur vísvitandi ekkert sem kemur í veg fyrir að intersex fólk geti notið verndar laganna.

Viðmiðunarreglur ástralska samveldisins um viðurkenningu á kyni og kyngervi (2013):

Intersex einstaklingur gæti haft líffræðileg einkenni beggja kynja eða skort einhver þeirra líffræðilegu einkenna sem talin eru nauðsynleg til þess að hægt sé að skilgreina kyn. Intersex er alltaf meðfætt og getur stafað af erfðafræði, litninga- eða hormónalegum breytileika.

Umhverfisþættir á borð við hormónatruflandi efni geta einnig komið við sögu í einhverjum tilfellum. Intersex fólk skilgreinir kyn sitt ýmist sem KK, KVK eða X.

Þýtt og birt með góðfúslegu leyfi Organisation Intersex International

Upphafleg grein